Search

Að elska sjálfa sig

Updated: Jul 2

Það er ekkert feimnismál að margir eru að berjast við sjálfsmyndina sína. Ég er ein af þeim sem hefur alltaf verið með mjög brenglaða sjálfsmynd. Við sem einstaklingar þurfum alltaf að vera í sjálfsvinnu því að mínu mati þá erum við aldrei búin að toppa sjálfa okkur. Við getum alltaf verið betri.


Ég hugsaði alltaf "ég mun ná að elska sjálfa mig þegar ég er búin að missa x mörg kíló" eða "ég mun ná þessu ef ég mála mig alla daga". NEI! Þetta er ekki lykillinn af hamingjunni! Ég er samt alls ekki að segja að við eigum að hætta að hugsa um okkur líkamlega. En alveg sama hvernig þú ferð að því þá þarftu að ná að elska sjálfa þig eins og þú ert.


Ég stunda reglulega hreyfingu, þetta samkomubann hefur reyndar gert það erfiðara fyrir mig að hreyfa mig en ég geri það samt. Ég hreyfi mig ekki til þess að grennast eða missa kíló. Ég hreyfi mig svo að mér getur liðið vel í eigin skinni, ef ég grennist í leiðinni þá er það bara bónus.


Ég þyngdist mikið á meðgöngunni og er búin að berja sjálfa mig rosalega mikið niður. Ég skoða gamlar myndir af sjálfri mér og hugsa "vá hvað ég var grönn og flott þarna" samt hugsa ég út í tímabilið þegar þessi tiltekna mynd var tekin, mér fannst ég ekki grönn. Þetta hugarfar er svo brenglað og sýnir okkur að ef sjálfsmyndin er ekki í lagi þá eigum við aldrei eftir að vera hamingjusöm með sjálfan okkur.


Ég er því miður ekki með neinn töfralykil á hvernig á að elska sjálfa sig en ég get deilt með ykkur hvað hefur virkað fyrir mig. Þessar lausnir hljóma eins og þær hafa ekkert með að gera með að elska sjálfa sig en þetta hjálpar mjög mikið til!


Vera í rútínu - Það er mjög mikill lykill hjá mér að passa að halda rútínu, það gerir allt auðveldara bæði fyrir mig og barnið. Covid-19 faraldurinn hefur svo sannarlega reynt á þetta en þetta gerir okkur sterkari fyrir vikið.


Búa um rúmið - Ég var lengi með þá skoðun að það væri tilgangslaust að búa um rúmið þegar ég væri að fara að sofa í því seinna um kvöldið, og eflaust margir með þá skoðun. Þetta auðvelda verk gerir daginn þinn svo mikið auðveldari, ég lofa því! Það er eitthvað við þetta sem gerir allt betra!


Fara í göngutúr - Ég fer mjög oft í göngutúr, ekki bara fyrir hreyfinguna heldur fyrir sálina. Að fara út í smá göngutúr með góða tónlist eða podcast gerir magnaða hluti. Þú færð eitthvernvegin pásu frá öllu og ert bara að labba og hreinsa hugann. Ég hef gert þetta í mörg ár!


Gera eitthvað 1 á dag sem er bara fyrir þig - Maður á það stundum til að gleyma sér í öllu amstrinu. Það að gera eitthvað 1 á dag sem er bara fyrir þig, þó það sé bara að lengja sturtu tímann um 5 mínútur er rosalega gott fyrir sálina.


Ég vona að þessi pistill hjálpar ykkur, væri líka mjög gaman að fá að heyra reynslusögur og ykkar lykla sem hjálpa ykkur.


Ást og friður.©2020 by Lolita. PHH design