Search

Fæðingarsagan mín

Updated: Jul 2, 2020

Þann 28.Febrúar ákvað sonur minn loksins að láta að sjá sig tíu dögum eftir settan dag. Hann fæddist 15 merkur, 3838gr og 52cm, og með fullt af hári.

Alla meðgönguna var ég spennt fyrir fæðingunni og hlakkaði alltaf svo mikið til að fá að upplifa þetta. Ég var búin að undirbúa mig mjög vel og var aldrei stressuð fyrir fæðingunni, sem ég held að hafi eitthvað að gera með hversu "auðvelt" þetta var. Ég vildi aldrei ákveða neitt varðandi fæðinguna þar sem ég vissi að þetta gæti farið á alla vegu og vildi vera viðbúin því að það þyrfti ef til vill að grípa inn í. En eina sem ég vissi var að mig langaði ekki í mænudeyfingu og langaði að fara í baðið, sem ég reyndar gerði aldrei því þetta gekk þannig séð svo hratt fyrir sig.


Ég átti tíma hjá ljósmóðurinni minni þegar ég var gengin 40 vikur og hún skoðaði mig og hugsaði að hann myndi fara að láta sjá sig á næstu dögum þar sem hann var mjög vel skorðaður. Viku seinna var ekkert að gerast nema litlir fyrirvaraverkir annað slagið svo ég fór aftur til ljósmóðurinnar 25 febrúar komin þa 41 viku. Ég var orðin mjög hagstæð og komin með þrjá í útvíkkun, en hún ákvað að hreyfa við belgnum til þess að reyna að byrja þetta. Við fórum heim og það byrjaði að blæða aðeins, sem er alveg eðlilegt þegar það er gert og ég fór að finna fyrir sterkari verkjum svo ég ákvað að leggja mig.

ENN var ekkert að gerast fyrr en nóttina eftir, Þá fór ég loksins að finna fyrir fleiri og sterkari samdráttum, en náði samt að sofa alla nóttina í gegnum þá. Daginn eftir héldu verkirnir áfram og um fimm leytið voru þeir orðnir frekar reglulegir og sterkir svo við ákváðum að fara með spítalatöskuna og bílstólinn og kíkja upp á sjúkrahús og láta meta stöðuna, eftir sirka 14 tíma af verkjum. Ég var sett í monitor til þess að fylgjast með samdráttum og hjartslætti barnsins, síðan var ég skoðuð og var þá bara komin með fjóra í útvíkkun svo ljósmóðirin gaf mér verkjatöflur og sendi mig heim til þess að hvíla mig en bjóst við að sjá mig seinna um kvöldið aftur. Þegar við vorum á leiðinni heim þurfti ég að stoppa í stiganum á leiðinni niður vegna þess að samdrættirnir voru farnir að vera sterkari. En þarna var LOKSINS eitthvað að gerast og ég vissi að barnið mitt væri loksins að fara að láta sjá sig, svo ég fór heim að taka aðeins til og moppa gólfið (afþví það þarf allt að vera hreint og fínt fyrir barnið ekki satt?)

Ég náði ekkert að hvíla mig þar sem ég var farin að þurfa að anda mig í gegnum samdrættina og náði ekkert að liggja eða sitja, Ég tók eftir því hvað verkirnir urðu miklu bærilegri ef ég stóð og hallaði mér fram á rúmið og vaggaði mér svona til hliðar.

Þegar klukkan var orðin 10 þá hringdi ég upp á deild og ljósmóðirin sem skoðaði mig síðast sagðist hafa verið að bíða eftir símtali frá mér og sagði mér að koma bara upp á sjúkrahús. Svo Palli kærasti minn fór eðlilega að vaska upp óhreina leirtauið frá kvöldmatnum og síðan fórum við að stað. Við fórum beint inn á fæðingarstofu og ég fékk glaðloftið á meðan ég var skoðuð, þarna var ég komin með 8 í útvíkkun og allt í fullu fjöri. Mér fannst ennþá þægilegast að standa og labba um á mili hríða en fór niður á fjóra og hékk í fanginu á kærasta minum á meðan hann sat í lazyboy stólnum, þangað til að ég fór að finna fyrir rembingsþörf. Ljómsóðirin vildi endilega að ég myndi fara á klósettið og reyna að pissa svo ég gerði það og eftir að hafa setið á klósettinu í smá tíma missti ég vatnið voða pent ofan í klósettið og fór síðan strax upp á bekkinn þar sem ég var farin að rembast. Eftir sirka 6 rembinga fékk ég litla strákinn minn í hendurnar klukkan 01:03 eftir alla þessa bið. Ég rifnaði örlítið á börmunum svo það þufti að sauma nokkur spor en þrátt fyrir það, var þetta algjör draumafæðing fyrir mér.

Þetta er það skemmtilegasta og besta sem ég hef gert og er ég svo þakklát fyrir að hafa átt svona góða og vel heppnaða fæðingu.

Og það er ekkert sem toppar tilfinninguna þegar ég fékk litla fallega lubbann minn í fangið.


Takk fyrir að lesa :)


0 comments

©2020 by Lolita. PHH design