Search

Fyrstu dagarnir

Updated: Jul 2, 2020


Fyrstu dagarnir í lífi okkar lubba litla fóru ekki alveg eins og við vorum búin að búast við.

En eftir þessa drauma fæðingu sem ég átti, missti ég rosalega mikið blóð og þurfti að eyða fyrstu þremur dögunum upp á sjúkrahúsi í stanslausu eftirliti.

Þegar hann fæddist, fékk ég hann beint upp á bringuna og var með hann þar fyrsta klukkutímann á meðan það var verið að sauma mig þarna niðri. Sjúkraliðinn sem var viðstödd fæðinguna fór fram og bjó til samlokur fyrir okkur en ég hafði enga orku í að borða, stuttu seinna bið ég kærasta minn um að taka strákinn því ég fann tilfinningu eins og að ég var alveg að sofna. Ljósmóðirin kemur inn og sér strax að ég sé eitthvað óvenju föl og reynir að tala við mig en ég á mjög erfitt með að svara og dett bara alveg út.

Hún sér að ég er búin að missa meira blóð en venjulega og mælir blóðþrýstinginn sem er orðin mjög lár, svo ljósmóðirin fer í það að setja upp æðalegg til þess að gefa mér vökva og lyf í æð til þess að draga legið saman. Daginn eftir var ég búin að missa svo mikið blóð að ég þurfti að fá tvo skammta af blóðgjöf, og mátti þar af leiðandi ekki fara heim þar sem það þurfti að fylgjast með því hvernig líkaminn tæki þessu. Á þriðja deginum vorum við orðin mjög spennt fyrir því að komast heim og ég var orðin allt önnur og leið miklu betur, Svo við fengum grænt ljós á það. En það var hugsað svo vel um okkur þarna upp á Akranesi og allir svo yndislegir og svo rólegt og þægilegt. Ég mæli eindregið með því eiga upp á Akranesi ef það er hægt!


En fyrsta nóttin hérna heima var frekar erfið og hann svaf voðalega lítið og ég var ennþá svo orkulaus svo það tók alveg vel á. En fljótlega eftir það vorum við búin að koma upp góðri svefnrútínu og hann vaknar núna bara tvisvar sinnum á nóttunni til þess að drekka og sofnar síðan strax aftur, sem mér finnst mjög þægilegt.

Brjóstagjöfin gengur frábærlega, ég mjólka mjög mikið og hann er rosalega duglegur að drekka. En mjólkin var frekar lengi að koma upp hjá mér og þurfti hann þar að leiðandi að fá ábót upp á sjúkrahúsi. Sem ég viðurkenni að var mjög erfitt fyrir mig og ég grét yfir því að geta ekki sinnt honum almennilega. En ég veit nú samt alveg að líkaminn var ennþá að jafna sig og mjólkin lengi að koma út af því og það er alls ekkert verra að fá þurrmjólk, en mér fannst það bara sárt að geta ekki gefið honum nóg og róað hann niður.


En við erum alveg í skýjunum yfir litla lubbanum okkar og erum svo stolt af því hvað hann er duglegur í öllu, alveg sama hversu litlir hlutirnir eru. Hann er orðinn tveggja vikna núna og er farin að vera meira vakandi, tekur miklu meira eftir hlutunum og elskar að stara á foreldra sína Ég get ekki beðið eftir því að fylgjast með honum stækka og læra á lífið. Þessar tvær vikur eru alveg búnar að vera erfiðar á köflum en ég myndi ekki skipta þeim út fyrir neitt annað.Afsakið væmnina en ég er bara svo yfir mig hamingjusöm og þakklát. <3


0 comments

©2020 by Lolita. PHH design