Search

Heimagert barnamauk - kostir og gallar

Ég stúderaði heimagert barnamauk mikið þegar Adrían var kominn á aldur og orðinn tilbúinn fyrir fyrstu fæðuna. Þegar ég var ólétt þá kaus ég að gera allan mat sjálf frá grunni. Auðvitað þá fékk ég að heyra "þú átt eftir að gera þetta í svona viku og síðan hættiru að nenna þessu". Já nei nei það var nú ekki málið í mínu tilfelli. Ég er auðvitað enginn sérfræðingur í svona málum en ég las mig mikið til um þetta. Ég kaus að fara þessa leið því mér leið best að vita 100% hvað barnið væri að borða.


Kostir:

  • Þú veist uppá 10 hvað þú ert að setja ofan í barnið þitt.

  • Þetta er töluvert ódýrari leið heldur en að kaupa tilbúnar vörur.

  • Þú getur valið hvaða tegundir þú vilt blanda saman og getur haft mikla fjölbreytni.

  • Barnið venst að borða það sama og fjölskyldan nema bara í maukuðu formi.

  • Barnið venst hollu og góðu fæði.

Gallar:

  • Þetta er rosalega tímafrekt. Ég gerði alltaf stóra skammta í einu og frysti.

  • Maður þarf alltaf að hugsa fyrirfram hvað á að borða yfir daginn, sérstaklegar þegar maður er að fara eitthvert og pakka því saman.

  • Þetta tekur upp mikið pláss í frysti og ísskáp. Heimagerður maukur eyðileggst mun fljótar en það sem er hægt að fá í búð.

Ég er ekki að segja að ég leyfði barninu ekki að fá eitthvað sem var keypt í búðinni. Stundum lá bara þannig á að við stoppuðum við í búð og kipptum eitthverju með okkur.


Við notuðum gufusuðupott til að gufusjóða alla ávexti og grænmeti sem við vorum að undirbúa fyrir hann. Síðan notuðum við töfrasprota til að mauka matinn og notuðum vatnið i gufusuðupottinum til að þynna matinn enþá meira (mesta næringin úr fæðunni fer í vatnið þannig það er mjög hollt og gott að nota vatnið sem verður eftir í pottinum). Engir bitar megar vera í fæðunni fyrst um sinn þannig það er mikilvægt að mauka vel. Við notuðum sílikon klakaform (formin voru keypt í ikea) til að setja allt í frysti. Við gerðum alltaf rosalega mikið magn í einu þannig við værum ekki alltaf að mauka þar sem þetta er rosalega tímafrekt.


Við byrjuðum á að kynna fyrir honum rótargrænmeti eins og ungbarnaverndin ráðlagði okkur að gera. T.d. gulrætur, sætar kartöflur, brokkolí, blómkál o.fl. Síðan kynntum við fyrir honum fleirri tegundum af ávöxtum og grænmeti. Ungbarnaverndin ráðlagði okkur að kynna allt grænmeti fyrst og ávexti eftir það þar sem ávextir eru svo sætir og það eru líkur á að hann myndi hafna grænmetinu og vilja frekar ávextina. Við fórum síðan að kynna fyrir honum fleirri fæðutegundir og þá fór allt að vera töluvert auðveldara í eldhúsinu. Hann fór að borða allt sem við borðuðum. Við tókum frá matinn áður en hann er kryddaður og maukuðum fyrir hann.


Þetta hljómar allt mjög flókið (mér fannst það allavega) en þegar við vorum komin með ákveðið system þá var þetta bara rosalega auðvelt og þæginlegt. Við erum mjög ánægð með að hafa farið þessa leið þar sem Adrían elskar að borða og við höfum sjaldan lent í því að hann neitar mat. Öll þessi vinna skilaði sér svo sannarlega og hann elskar allan mat!


Það er heldur ekkert að því að kaupa tilbúinn barnamat fyrir barnið sitt. Að gera allan mat frá grunni fyrir barnið sitt er rosalega mikil vinna og alls ekki allir sem kjósa að gera það og það er líka bara allt í góðu. Tilbúinn barnamatur er gerður fyrir börn og er bara frekar góður.


Ég vil taka það fram að ég er ekki sérfræðingur í svona málum. Þegar ég var að afla mér upplýsinga um þetta þá var ég mikið í að horfa á myndbönd og lesa greinar þar sem ég vissi ekki neitt um fæðu barna. Ég vildi skrifa þetta fyrir þá sem vilja fara þessa leið og vilja vita meira um þetta. Ég mæli með að allir afla sér upplýsinga hjá sérfræðing ef það er eitthvað sem þig langar að vita (ég er týpan sem mætti með blað með fullt af spurningum þegar við fórum í skoðun á heilsugæslunni haha!).


Ég vona að þessi færsla komi sér að góðum notum hjá ykkur. Mér finnst alltaf gott að heyra frá lesendum hvernig aðrir eru að gera þetta fyrir sín börn.


Takk fyrir mig.


0 comments

©2020 by Lolita. PHH design