Search

Meðganga og fæðing

Updated: Jul 2, 2020

Mig langar að skrifa um meðgönguna mína og fæðinguna. Þegar ég var ólétt þá fylgdist ég með mikið af áhrifavöldum, hlustaði á endalaust af podcast og las endalaust af greinum. Það er rosalega mikið talað um góðu hliðarnar og mikið sýnt bara frá "glansmyndinni". Ég barði mig svo mikið niður á meðgöngunni fyrir að gera ekki allt sem ég "átti" að gera. Ég hefði viljað að það sé talað meira um raunveruleikann. Það sem fólk setur inn á netið og samfélagsmiðla er ekki alltaf raunveruleikinn.


Ég var tvítug að verða 21 þegar við komumst að því að við værum með barn á leiðinni. Ég er rosalega vön að vinna mjög mikið og þurfti að hætta að vinna þegar ég var komin 12 vikur á leið því líkaminn var bara ekki að vinna með mér. Við fluttum í stærri íbúð, keyptum stærri bíl og allt leit rosalega vel út fyrir fólki. Það sem fólk sá ekki var líkamleg vanlíðan, einangrunin og kvíðinn.


Það er einfaldlega staðreynd að sumar konur eiga auðveldara með að bera börn á meðan aðrar geta átt rosalega erfitt á meðgöngu. Ég fékk flest alla þá kvilla sem hægt var að fá. Ég byrjaði að finna fyrir verkjum í grind á 10.viku, ég ældi daglega þangað til að ég var komin rúmlega 20 vikur á leið, ég var alltaf með samdrætti þrátt fyrir að ég gerði varla neitt allan daginn.


Ég einangraðist mjög mikið þegar ég var ólétt. Ég var alltaf heima og mikið ein. Það var aldrei ætlunin að eingangrast eitthvað en það bara gerðist. Ég var vina mikil áður en ég varð ólétt en þar sem ég var að fara í nýjan kafla í mínu lífi þá fundust vinum/vinkonum mínum að við vorum ekki með mikið sameiginlegt á þessum tíma í lífi mínu. Það hefur mikið verið talað um hvað ungar mömmur missa fólk úr lífi sínu þegar þær eignast börn og mér finnst sú umræða frábær og mikilvæg! Það var fólk í mínu lífi sem ég þurfti að loka á vegna þess að mér fannst að það væri það besta í stöðunni fyrir mig og ófædda barnið mitt. Ég tók mikið til í mínum innri hring og valdi einfaldlega það fólk sem ég vildi hafa í öryggisnetinu mínu. Þetta öryggisnet er lítið en fólk sem ég treysti fyrir lífinu mínu. Ég hef alltaf farið eftir orðatiltakinu "If you can't handle me at my worst, then you don't deserve me at my best". Alveg sjúklega cheesy orðatiltak en það er mikið til í þessu!


Það er náttúrulegt og mikilvægt ferli fyrir konu sem gengur með barn að skoða hvernig og hvaða einstaklingar hún er umkringd, stundum fara konur í að færa sig frá einstaklingum, stundum eru þær bara sáttar. Ég var alls ekki sátt og ég tók rækilega til. Ég eignaðist síðan alveg frábærar vinkonur sem er ævinlega þakklát fyrir.


Ég fór í gegnum meðgönguna verkjuð, einmanna og hrædd. Vissi ekkert hvað ég væri að fara útí. Ég var í reglulegum heimsóknum hjá sálfræðing sem hjálpaði mér mikið, ég mætti með langan lista af spurningum og pælingum þegar ég fór að hitta ljósmóðurina mína, ég gerði í því að gera þetta ferli auðvelt og þæginlegt. Málið er að þessi tími er bara drullu erfiður, ég ætla ekki að segja að þetta var bara dans á rósum því þetta var það ekki. Ég þurfti að leggja inn mikla sjálfsvinnu til þess að takast á við þetta verkefni á sem besta hátt. Það sem hjálpaði mér mjög mikið er að vera með einhvern til þess að tala við sem þú treystir 100%.


Meðgöngueitrun. Þetta er orð sem margir heyra. Ég vissi ekki hvað væri að gerast undir lokin þegar ég greindist með meðgöngueitrun. Ég var undir ströngu eftirliti í mæðraverndinni og þurfti nokkrum sinnum að fara niður á kvennadeild í skoðun. Einkennin mín voru, bjúgur (það er samt algengt á meðgöngu), hár blóðþrýstingur, sjóntruflanir (eins og ég sá flikrandi stjörnur) og mikil vanlíðan. Þetta byrjaði á 34. viku og ljósmóðirin mín bað mig um að fara varlega og helst gera ekki neitt, hennar orð voru "leggstu upp í rúm, kveiktu á netflix og slakaðu á". Þetta er ekki beint sem maður vill heyra þegar maður er kominn 34 vikur á leið og er á fullu að undirbúa komu barnsins. EN ég hlýddi. Ég á yndislegan mann sem stóð með mér í þessu öllu saman. Hann sá um eiginlega allt á þessum síðustu metrum þrátt fyrir að vera í fullri vinnu, HETJA!


Ég var sett af stað þegar ég var komin rúmlega 38 vikur og 4 daga. Ég vaknaði um morguninn 7.maí 2019 og var með dúndrandi hausverk, of háan blóðþrýsting og sá bara stjörnur. Ég hringdi í ljósmóðurina mína á slaginu 8 og hún bað mig um að koma til sín. Ég og maðurinn minn fórum saman á heilsugæsluna, ljósmóðirin skoðaði mig og hringdi niður á deild og sagði okkur að fara heim og ná í spítalatöskuna og fara niður á deild. Við gerðum það og ég var lögð inn. Ég þurfti að bíða eftir plássi uppá fæðingardeild til þess að hefja gangsetninguna. 8.maí kl 16 þá var ég færð upp á fæðingardeild, ég fékk gangsetningartöflur á 2ja tíma fresti en ekkert var að gerast. 9.maí kl 15:00 var sprengt belginn. Ég fór þá strax í hríðar og var færð inn á fæðingarstofu. Mamma mín var á leiðinni til okkar með að borða og var að labba inn þegar ég var að byrja í hríðum. Mamma var hjá okkur í öllu þessu ferli og ég get alveg sagt ykkur það að ég hefði ekki getað þetta án mömmu, enda veit konan nákvæmlega hvað hún er að gera þegar kemur að þessum málum! Ég var í hríðum í 16 klst og ég lofa ykkur því að mænudeyfing er þess virði! Þvílik Guðsgjöf sem þetta er! Ég náði að sofa og slaka á í bullandi hríðum því ég fékk mænudeyfinguna.


Drengurinn fæddist 6:20 10.maí! Þvílíkt magnað ferli sem við fórum í gegnum og ég er svo þakklát fyrir allt sem ég fór í gegnum bara til þess að fá þennan litla gullmola! Mamma og Bjössi stóðu við bakið á mér eins og hetjur. Undir lokin þá var ég orðin svo þreytt en þvílíka peppið sem ég fékk frá mömmu og Bjössa! Ég biðst forláts fyrir að kreista á þeim hendina svona mikið! En HEY! Ég ýtti út barni!


Þessi lífsreynsla er rosalega krefjandi en samt sem áður mögnuð og gefandi!


Takk fyrir mig!


0 comments

©2020 by Lolita. PHH design