Search

Meðgangan mín - Raunin

Updated: Jul 2, 2020

Ég hef verið að fylgjast með Kviknar á instagram síðan áður en ég varð ólétt og elska að fylgjast með og sjá allar sterku konurnar segja frá sinni reynslu og sýna raunveruleikann í kringum þetta, því eins yndislegt og það er að geta gengið með barn, þá er það líka drullu erfitt og getur tekið svo mikið á líkamlega og andlega. Mér finnst vera svo mikilvægt að hafa svona opinn miðil og getað talað um erfiðleikana og allt sem konur þurfa að ganga í gegnum til þess að koma lífi í heiminn og ekki verið dæmdur fyrir það. Ég mæli með því að fylgjast með þessu Instagrammi og sjá allar mismunandi reynslusögurnar hjá allskonar konum, hvort sem þú átt von á barni eða ekki.

Mig hefur lengi dreymt um það að verða ólétt og verða mamma og hef beðið eftir þessu lengi, og þó svo að ég hafi alveg vitað að meðgangan gæti orðið erfið þá bjóst ég aldrei við því sem ég gekk í gegnum. Í hvert skipti sem ég var spurð hvernig meðgangan væri að ganga var svarið mitt nánast alltaf “ömurlega” og fann ég alltaf fyrir hneyksli í fólki við því svari.

En eftir að hafa legið í veikindum í þrjá daga og ekki farið á túr frekar lengi, ákvað ég að fara út í búð og kaupa óléttupróf. Um leið og ég leit á prikið blöstu við mér þessar 2 sterku bleiku línur og þó svo að ég hafi verið hissa, þá var ég líka yfir mig hamingjusöm og spennt. En fljótlega eftir þetta byrjaði ógleðin og ég var ælandi alla daga frá morgni til kvölds og átti erfitt með að halda mat niðri og nærðist þar að leiðandi illa, einnig fór ég að finna fyrir grindargliðnun mjög snemma á meðgöngunni.

Ofan á þerta var ég svo rosalega þreytt og gat sofið allan daginn, farið í vinnuna um kvöldið og síðan sofið aftur alla nóttina og svona gekk þetta í margar vikur.

Planið hjá mér var að vinna sem lengst á meðgöngunni en líkaminn leyfði mer það ekki. Blóðþrýstingurinn var að mælast mjög hár hjá mér og það fór að líða yfir mig á vöktum og ég fékk svakaleg hitaköst og missti sjón og heyrn í smá tíma, og fór margoft til læknirs og í allskonar blóðprufur en þar sem ég fékk engin svör, tók ég þá ákvörðun að hætta að vinna í kringum 20 vikurnar.

Það var mjög erfitt fyrir mig og fannst mér ég vera algjör aumingi fyrir að vera bara heima að gera ekki neitt og skammaðist mín, þar sem enginn gat vitað hversu illa mér leið. Að vera svona veik tók mikið á andlega og get ég ekki beðið eftir þvi að fa líkamann minn aftur.

En eftir 30 vikurnar var ógleðin alveg farin, grindin ekki jafn slæm og þreytan buin að minnka aðeins og ég var loksins farin að geta notið þess að vera ólétt.


Þó svo að þetta sé það erfiðasta sem ég hef þurft að gera, þá er þetta líka það besta og ég er svo þakklát fyrir að geta gengið með barn og get ekki beðið eftir að fá litla strákinn minn í hendurnar❤️


0 comments

©2020 by Lolita. PHH design