Search

Nokkur atriði sem ég hefði viljað vita um ástand eftir fæðingu

Updated: Jul 2

Adrían Leví er mitt fyrsta barn og það eru rosalega margir hlutir sem ég hefði vilja vita um það sem gerist eftir fæðingu. Það er ekki mikið talað um þessa hluti því þeir eru ekki beint huggulegir. Það er mikið talað um fæðingar en það eru þó nokkrir hlutir sem er ekki talað mikið um.


- Fyrsta ferðin á klósettið

JÁ! Ég ætla að fara þangað! Þetta er það sem kom mér rosalega mikið á óvart. Það er alls ekki þæginlegt að fara á klóið eftir að hafa pungað út einu stykki barni. Að pissa svíður fyrstu skiptin. Að kúka er alls ekki þæginlegt! Að finna fyrir þessum óþægindum er mjög eðlilegt enda er allt þarna niðri mjög viðkvæmt eftir fæðingu. Ég hef heyrt að margar konur taka lyf sem mýkja hægðirnar til að gera þessar fyrstu klósettferðir aðeins bærilegri.


- Krampar og verkir

Miklir verkir fylgja bataferlinu eftir fæðingu. Legið er að draga sig saman og það er ekki þæginlegt, eins og túrverkir x 10. Brjóstagjöfin ýtir undir þessa verki en þetta er eitthvað sem er fullkomlega eðlilegt og verkirnir eru alveg bærilegir, bara smá óþæginlegt. Heitur bakstur, heitt bað/sturta er mjög gott til að linna verkina.


- Kósýföt

Ég reyndar vissi að kósýföt væru must eftir fæðingu en ég hef heyrt margar sögur af mæðrum þar sem þær tóku mjög óþæginleg föt með sér uppá fæðingadeild, td. gallabuxur. Ég var í kósýfötum alveg fyrstu vikurnar.


- Óléttubumban hverfur ekki

Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt að konur voru að búast við að óléttubumban myndi bara hverfa. Það er alls ekki satt. Það er sagt að það tekur 9 mánuði að ganga með barn og 9 mánuði að ganga saman, þetta er þannig í flestum tilfellum. Síðan eru auðvitað konur sem eru mjög heppnar og ganga hratt saman. Yfirleitt þegar konur labba útaf fæðingardeildinni þá líta þær út eins og þær séu komnar 5 mánuði á leið ca. Ég sjálf er enn að ganga saman og það er komið ár síðan ég átti.


- Slys við að hnerra

Já það geta komið slys. Grindabotninn er ekki uppá sitt besta á þessu tímabili og það getur komið fyrir að konur pissa á sig við minnsta álagið eins og að hnerra eða hlægja. Grindabotns æfingar eru mjög góðar til að koma í veg fyrir þetta.


- Úthreinsun

Ég vissi ekki fyrr en ég var að upplifa að það kemur mikið blóð eftir fæðingu. Úthreinsunin getur tekið allt að sex vikur og mikilvægt að bara nota dömubindi en ekki túrtappa þar sem túrtappi eykur líkurnar á að fá sýkingu þarna niðri. Fínt að bæta því inní að ekki nota venjuleg dömubindi, kauptu frekar þessi risa bleyju dömubindi sem fást í apóteki.


- Sængurkvennagrátur

Ég hafði aldrei heyrt um þetta! Ég var sígrátandi og alltaf allt í volli hjá mér! Það var ekki fyrr en vinkona mín spurði mig nokkrum mánuðum eftir fæðingu hvort ég hafði fengið sængurkvennagrátinn. Það er rosalegt magn af hormónum í líkamanum þannig þetta er mjög algengt hjá konum eftir fæðingu. Við verðum samt að hugsa vel um okkur því við viljum ekki enda á að fá fæðingarþunglyndi.


- Líkaminn verður kannski aldrei sá sami

Allavega í mínu tilfelli þá er þetta málið. Ég fékk rosalega mikið af slitum á magan og núna þá er húðin mjög slöpp. Þetta á ekki að vera neitt feimnismál þar sem þetta eru sönnunargögn á að við bárum börn. Elskum líkamann okkar.


Takk fyrir að lesa og vonandi mun þetta hjálpa öðrum mæðrum sem eru að fara að ganga í gegnum þetta magnaða ferli.

©2020 by Lolita. PHH design