Search

Pabbarnir skipta líka máli

Ég ætla að nýta þessa síðu til að skrifa um eitt sem mér hefur lengi langað að skrifa um. Ég rakst á eina mynd (myndin er neðst) á Facebook áðan sem var soldið 'dropi í hafið'.


Málið er að það er málað pabbana sem leti hauga..... Það er látið eins og pabbarnir gera ekki neitt nema hugsa um bossann á sjálfum sér. Jújú það eru einhverjir einstaklingar sem eru algjörir haugar en þessi stimpill er á öllum. Þegar Adrían var 3 mánaða þá hitti ég eina konu sem ég hef þekkt lengi, Bjössi var að gefa Adrían pela á meðan ég var að tala við hana. Hún spurði mig afhverju Bjössi væri að gefa honum pela en ekki ég. Hennar orð voru "hvað, læturu manninn gera allt fyrir þig?". Ég hélt ég myndi missa allt kúl þarna en ég áttaði mig fljótt á að svona var hún alin upp, mamman gerði allt og pabbinn skipti sér ekki af. Ég þurfti að útskýra fyrir henni að á okkar heimili taka báðir foreldrar þátt í öllu, hvort sem það er bleyjuskipti, leiktími eða matartími, bæði ég og Bjössi tökum þátt í öllu.


Þetta er svipað þegar kemur að mömmunni líka. Það að mamman fer aftur út á vinnumarkað og pabbinn er heima með börnin er mjög "frowned upon". Ég veit um nokkur svona tilfelli og það er alltaf dæmt mömmuna og sagt að hún elskar vinnuna sína meira en barnið sitt. Nei sko Í ALVÖRUNNI?!?! Ekki það að það komi neinum við hvernig fólk háttar fjölskyldu lífinu sínu en það er aldrei pælt í neinu öðru. Hvað ef fjárhagurinn er það slæmur að móðir bara þarf að fara aftur að vinna? Kannski er hún tekjuhærri en maðurinn og að þetta sé eitthvað sem þarf að gera til að geta keypt í matinn út mánuðinn. Það er náttúrulega ekkert leyndarmál að fæðingarorlof setur smá strik í reikninginn fjárhagslega hjá sumum.


Það að mamman er heima að hugsa um börn og bú á meðan pabbinn vinnur bakbrjótandi vinnu er orðið mjög úrelt fyrirbæri. Í mínu tilfelli er maðurinn minn í fullri vakta vinnu. Þá daga sem hann vinnur held ég uppi öllu heima við þar sem ég er ekki í vinnu. Dagana sem hann er ekki í vinnu er hann með okkur og við bæði sinnum því sem þarf að sinna.


Ég vil taka bara smá stund og segja við alla feður þarna úti, sem eruð raunverulega að taka þátt í lífi barnanna ykkar, að þið eruð að standa ykkur vel. Við sjáum ykkur og þið eruð að gera ykkar besta.


Það eru líka mæður eða feður sem standa einar/einir í uppeldi barnanna sinna. Ég vil líka koma því frá mér að þið eruð að standa ykkur eins og hetjur. Uppeldi er tveggja manna vinna og þið fáið risa stórt klapp frá mér.


Takk fyrir að lesa þetta, þetta hefur legið lengi á mér.
0 comments

©2020 by Lolita. PHH design